Forseti er verndari samfélagssáttmálans
Forsetinn er í okkar huga verndari samfélagssáttmálans, eða þeirra viðmiða sem við höfum komið okkur saman um og hafa reynst okkur svo vel. Hlutverk forseta er að tryggja að við horfum á það sem sameinar okkur, frekar en það sem sundrar. Það hefur sjaldan verið mikilvægara en einmitt núna að við stöldrum við og hugum að okkar sameiginlega menningararfi og fjölbreytta samfélagi.
Við viljum forseta sem talar þjóð sína upp, innan lands sem utan, en án drambs eða rembings. Við megum ekki gleyma því að forseti er eini þjóðkjörni fulltrúi þjóðarinnar og mikilvægi embættisins því mikið.
Forsetinn er sameiningartákn fyrir þjóðina. Á milli þjóðar og forseta er þannig beint og milliliðalaust samband og forseti verður alltaf, án nokkurra undantekninga, að hafa heildarhagsmuni þjóðarinnar efst í huga. Forseta bera að virða þingræðið í öllum megin atriðum og honum ber að tryggja að í landinu sé starfhæf ríkisstjórn á grundvelli vilja Alþingis.
En ef Alþingi fer, af einhverjum orsökum, fram úr sér og brýtur gegn samfélagssáttmálanum og þeim leikreglum sem við höfum haft í heiðri þá verður forseti að vera tilbúinn að grípa inn og vísa málum beint til þjóðarinnar. Þetta gæti til dæmis átt við ef til stæði að takmarka tjáningarfrelsi, réttindi kvenna eða hinsegin fólks. Þetta hljómar kannski, sem betur fer, eins og fjarstæðukenndar kringumstæður hérna á Íslandi, en einmitt þetta höfum við því miður séð í auknum mæli gerast í löndum í okkar heimshluta.
Við megum því aldrei sofna á verðinum. Forsetinn á að standa vaktina. Forsetinn á að standa vörð um þjóðina!
Í þessu samhengi er líka mikilvægt að nefna að forseti þarf að geta talað tæpitungulaust við aðra ráðamenn þjóðarinnar. Forsetinn verður að hafa kjark og þor til þess til að tala afdráttarlaust við ráðamenn.
Forseti má aldrei vera meðvirkur með valdhöfum eða ráðandi öflum, enda er forsetinn fulltrúi þjóðarinnar gagnvart ríkisstjórn hvers tíma.