Search
Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur, prófessor. Forsetaframboð 2024. baldurogfelix.is

Baldur

Baldur Þórhallsson er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og rannsóknastjóri Rannsóknaseturs um smáríki. Rannsókna- og kennslusvið Baldurs varða smáríki, utanríkisstefnu Íslands, Evrópufræði og alþjóðasamskipti.
Áhugi Baldurs á stjórnmálum kviknaði við það að hlusta á samræður um stjórnmál á æskuslóðunum í Rangárvallasýslu þar sem innanlandsmál sem utanríkismál voru gaumgæfilega rædd og fylgst með öllum fréttum.

Baldur fæddist á Selfossi 25. janúar 1968 en ólst upp á bænum Ægissíðu á bökkum Ytri-Rangár. Foreldrar Baldurs eru Þorbjörg Hansdóttir (Obba, 1939 – 2013), kaupmaður, og Þórhallur Ægir Þorgilsson (f. 1939), rafvirkjameistari. Á Ægissíðu bjuggu einnig afi Baldurs og amma, Þorgils Jónsson og Kristín Filippusdóttir, sem stunduðu blandaðan búskap. Baldur lagði hönd á plóg frá unga aldri en þjóðmálin voru aldrei langt undan og kom það fyrir að Baldur nefndi sauðfé eftir þekktu stjórnmálafólki þess tíma.

Á Ægissíðu var oft gripið í spil og teflt. Í frítíma sínum safnaði Baldur frímerkjum, hélt markaskrá og hafði sérstakt dálæti á bókunum um ævintýri Tinna og félaga. Baldur vann margvísleg störf á unglingsárum sínum svo sem í skeifnaverksmiðju, vegavinnu, sem veiðivörður og í söluskála foreldra sinna við þjóðveginn. Baldur gekk í Grunnskólann á Hellu og lauk síðar stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni árið 1988.

Lagði hann því næst stund á nám við Háskóla Íslands, þaðan sem hann útskrifaðist árið 1991 með BA gráðu í stjórnmálafræði. Á háskólaárum sínum var hann ritstjóri héraðsblaðs Suðurlands, ritstjóri stúdentafrétta, varaformaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, og ritstjóri Vökublaðsins. Það var á þessum tíma sem áhugi hans á stjórnmálum, lýðræði og fjölmiðlum var meitlaður í stein.

Felix Bergsson, leikari og fjölmiðlamaður. Eiginmaður Baldurs Þórhallssonar í forsetaframboði 2024. baldurogfelix.is

Felix

Felix Bergsson er þjóðinni kunnur sem leikari, söngvari og fjölmiðlamaður sem hefur undanfarin ár stýrt útvarps- og sjónvarpsþáttum svo sem Fram og til baka, Bergsson og Blöndal og Alla leið. Auk þess hefur hann undanfarin 30 ár framleitt og miðlað barnaefni í formi bóka, tónlistar, leikrita, myndskeiða og hljóðsagna. Áhugi Felix á tónlist og leiklist kom snemma í ljós og steig hann fyrst á svið í atvinnuleikhúsi 11 ára gamall í barnaleikritinu Klukkuborg í Þjóðleikhúsinu. Felix varð landsþekktur sem söngvari Greifanna á níunda áratugnum og hefur síðan þá komið víða við í íslensku menningarlífi. Felix fæddist í Reykjavík 1. janúar 1967 en bjó fyrstu árin á Blöndósi þar sem faðir hans var skólastjóri grunnskólans. Fjölskyldan flutti í Vesturbæ Reykjavíkur og festi kaup á timburhúsinu Túnsbergi þar sem Baldur og Felix búa nú. Felix hóf grunnskólagöngu sína á Blönduósi en fór þaðan í Melaskóla, Hagaskóla og Verzlunarskólann. Felix tók virkan þátt í tómstundastarfi og var bæði í körfubolta og fótbolta í KR, fékk kórstjórann í Melaskóla til að taka drengi inn í kórinn í fyrsta sinn og spilaði á túbu. Þá byrjaði hann ungur að leika og stofnaði meðal annars leikhópinn Veit mamma hvað ég vil? í Hagaskóla ásamt félögum sínum.