Baldur Þórhallsson er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og rannsóknastjóri Rannsóknaseturs um smáríki. Rannsókna- og kennslusvið Baldurs varða smáríki, utanríkisstefnu Íslands, Evrópufræði og alþjóðasamskipti.
Áhugi Baldurs á stjórnmálum kviknaði við það að hlusta á samræður um stjórnmál á æskuslóðunum í Rangárvallasýslu þar sem innanlandsmál sem utanríkismál voru gaumgæfilega rædd og fylgst með öllum fréttum.
Baldur fæddist á Selfossi 25. janúar 1968 en ólst upp á bænum Ægissíðu á bökkum Ytri-Rangár. Foreldrar Baldurs eru Þorbjörg Hansdóttir (Obba, 1939 – 2013), kaupmaður, og Þórhallur Ægir Þorgilsson (f. 1939), rafvirkjameistari. Á Ægissíðu bjuggu einnig afi Baldurs og amma, Þorgils Jónsson og Kristín Filippusdóttir, sem stunduðu blandaðan búskap. Baldur lagði hönd á plóg frá unga aldri en þjóðmálin voru aldrei langt undan og kom það fyrir að Baldur nefndi sauðfé eftir þekktu stjórnmálafólki þess tíma.
Á Ægissíðu var oft gripið í spil og teflt. Í frítíma sínum safnaði Baldur frímerkjum, hélt markaskrá og hafði sérstakt dálæti á bókunum um ævintýri Tinna og félaga. Baldur vann margvísleg störf á unglingsárum sínum svo sem í skeifnaverksmiðju, vegavinnu, sem veiðivörður og í söluskála foreldra sinna við þjóðveginn. Baldur gekk í Grunnskólann á Hellu og lauk síðar stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni árið 1988.
Lagði hann því næst stund á nám við Háskóla Íslands, þaðan sem hann útskrifaðist árið 1991 með BA gráðu í stjórnmálafræði. Á háskólaárum sínum var hann ritstjóri héraðsblaðs Suðurlands, ritstjóri stúdentafrétta, varaformaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, og ritstjóri Vökublaðsins. Það var á þessum tíma sem áhugi hans á stjórnmálum, lýðræði og fjölmiðlum var meitlaður í stein.
Baldur er giftur Felix Bergssyni leikara. Börn Baldurs og Felix eru Álfrún Perla Baldursdóttir og Guðmundur Felixson. Álfrún Perla er stjórnmálafræðingur og gift Árna Frey Magnússyni sagnfræðingi. Börn þeirra eru Eydís Ylfa og Sóley Lóa. Guðmundur Felixson er sviðslistamaður og kona hans er Þuríður Blær Jóhannsdóttir leikari. Sonur þeirra er Arnaldur Snær. Barnsmóðir Baldurs er Árelía Eydís Guðmundsdóttir viðskiptafræðingur og barnsmóðir Felix er Ásdís Ingþórsdóttir arkítekt. Systkini Baldurs eru Ólöf lyfjafræðingur og Bjarki sem lést árið 2021. Baldur og Felix eru miklir fjölskyldumenn og kjósa helst að verja tíma sínum í að lesa bækur með barnabörnunum, fara með þeim í leikhús eða sinna hestunum í sveitinni.
Helstu áhugamál Baldurs eru framandi menningarheimar, ferðalög, crossfit, stjórnmál, sagnfræði, spil og borðspil.
Baldur rekur menningartengda ferðaþjónustufyrirtækið Hellana við Hellu ásamt föður sínum, systur, dóttur og tengdasyni. Fjölskyldan vinnur að því að endurbyggja og varðveita umhverfi og sögu manngerðra friðlýstra hella á Ægissíðu í Rangárvallasýslu í samvinnu við nærsamfélagið og Minjastofnun. Þar sameinar hann áhuga sinn á sagnfræði og varðveislu sagnahefða á Suðurlandi með því að halda lífi í sögum sem hann fékk í arf frá afa sínum. Fjölskyldufyrirtækið er rekið í sama húsnæði og mamma Baldurs rak um langt skeið bensínstöð og söluskála en áður hafði pabbi hans rekið þar rafmagnsverkstæði.
Baldur tók að lokinni útskrift frá Háskóla íslands stefnu á Bretlandseyjar og lauk meistaranámi í samanburðarstjórnmálum og stjórnmálum Vestur-Evrópu frá Háskólanum í Essex árið 1994 og doktorsprófi árið 1999 frá sama skóla. Eftir Baldur liggur fjöldi fræðigreina og bókakafla, auk þess sem hann hefur ritstýrt bókum um stjórnmál og stjórnmálafræði. Á síðustu árum hefur hann rannsakað utanríkisstefnu Íslands í samhengi smæðar landsins og hvernig Ísland hefur getað og hvernig Ísland getur haldið áfram að hafa raunveruleg áhrif á gang alþjóðastjórnmála.
Fyrir stuttu kom út bók Baldurs og samstarfsmanna hans sem ber titilinn Smáríki og skjólskenningin: Utanríkismál Íslands (e. Small States and Shelter Theory: Iceland’s External Affairs.) Í bókinni er staða Íslands í alþjóðasamfélaginu greind út frá kenningu Baldurs um skjól smáríkja.
Á árunum 1995 til 2000 var Baldur stundakennari í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og lektor frá árinu 2000. Hann varð dósent við Háskólann árið 2002 og loks prófessor við stjórnmálafræðideild árið 2006. Þá var Baldur skorarformaður deildarinnar árin 2000 til 2002 og deildarforseti árin 2014 til 2018.
Baldur kom að því að endurreisa Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og stofnaði Rannsóknasetur um smáríki árið 2002 og gegndi formennsku stjórna þessara stofnana til ársins 2022. Innan stofnananna þrífst nú blómlegt akademískt starf þar sem umfangsmiklar rannsóknir eru stundaðar, auk kennslu, reglulegra málþinga og opinna fyrirlestra. Árið 2003 stofnaði hann Sumarskóla Rannsóknaseturs um smáríki sem yfir 800 erlendir og íslenskir nemendur hafa nú sótt. Auk þess stóð hann að stofnun meistaranáms í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands og diplómanáms í smáríkjafræðum.
Baldur hefur verið gestaprófessor við fjölda erlendra háskóla og flutt erindi um heim allan. Hefur hann meðal annars verið gestaprófessor við William College í Massachusetts, Háskólann í Washington í Seattle í Bandaríkjunum, Queen Mary Háskólann í London, Science Po í París, og við háskóla í Tallinn, Vilnius og Bergen. Þá hefur hann flutt fyrirlestra við fjölmarga háskóla og stofnanir víða um Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku, Asíu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi.
Felix fór í framhaldsnám til Skotlands og lærði leiklist við Queen Margaret University College í Edinborg og útskrifaðist árið 1991. Við heimkomuna lék Felix hjá Leikfélagi Akureyrar, Borgarleikhúsinu og í Þjóðleikhúsinu. Kom hann þar meðal annars fram í The West Side Story, Skilaboðaskjóðunni, Blóðbræðrum og Gauragangi. Felix hefur frá útskrift komið víða við í íslensku leikhúslífi og leikið jöfnum höndum í stóru leikhúsunum og með sjálfstæðum leikhúsum. Hann bætti við sig menntun í Central School of Speech and Drama árinð 1997-98.
Felix er meðal stofnenda leikhópsins Bandamanna, en sá hópur sýndi víða um heim á árunum 1992 – 2000. Árið 1998 stofnaði Felix leikhópinn Á senunni ásamt Kolbrúnu Halldórsdóttur og var fyrsta verkefni hópsins verk eftir Felix, Hinn fullkomni jafningi. Sýningin var frumsýnd í Gamla Bíó 1999 og hlaut sýningin mikla athygli innanlands sem og erlendis. Meðal annarra verkefna hópsins var sýningin Kvetch sem hlaut Grímuna 2003 sem besta sýning ársins, Ævintýrið um Augastein, Kabarett, Paris at night og Abbababb! sem hlaut Grímuna sem besta barnaleikrit ársins 2007.
Felix varð poppstjarna þegar hann gekk til liðs við Greifana árið 1986 en hljómsveitin sigraði Músíktilraunir það sama ár og lagið Útihátíð varð gríðarvinsælt. Felix hætti í hljómsveitinni til að sinna leiklistinni en gaf síðar út sólóplöturnar Þögul nóttin 2011 og Borgin 2014 sem hann vann í samvinnu við Jón Ólafsson.
Á árunum 1994 til 1996 sá Felix um Stundina okkar ásamt Gunnari Helgasyni leikara, auk þess sem þeir sendu frá sér jóladagatalið Leitin að Völundi. Þeir hafa síðan gefið út ótal mynddiska, geisladiska, kasettur og annað barnaefni. Þá hefur Felix lánað rödd sína hinum ýmsu persónum teiknimyndasögunnar svo sem Aladdín, Simba, Vidda í Toy Story og Manfreð í Ísöld.
Felix hefur í áratugi gefið út barnaefni til viðbótar við Stundina okkar svo sem hljóðsögurnar um Traust og Trygg, hljóðbækurnar um Freyju og Frikka, mynd og hljóðefni Sprota, bókina og leikritið Ævintýri um Augastein og leikritin Jól á náttfötunum og Bakaraofninn. Hann hefur lagt áherslu á mikilvægi barnamenningar og að gefa út gæða efni fyrir börn. Undanfarin ár hefur hann til að mynda tekið þátt í verkefninu List fyrir alla ásamt Gunnari Helgasyni þar sem þeir hafa ferðast um landið og heimsótt grunnskóla. Áhersla hefur verið á mikilvægi lesturs, að varðveita íslenskuna og skrifa sögur, fjölbreytt samfélag og mismunandi fjölskylduform.
Felix hefur stjórnað fjölmörgum útvarps og sjónvarpsþáttum frá árinu 1992. Meðal þátta í sjónvarpi eru Alla leið, Popppunktur, Fyrirgefðu, Íslensku tónlistarverðlaunin, Íslensku menntaverðlaunin og Veröld sem var. Hann var kynnir Íslands í Eurovision 2013-2016. Þá hefur Felix starfað á Rás 2 frá árinu 2006 og stjórnað vinsælum þáttum eins og Fram og til baka, Ilmandi í eldhúsinu, Gestir út um allt og Bergsson og Blöndal. Samstarf hans og Margrétar Blöndal er landsfrægt.
Felix hefur starfað að Eurovision, söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, frá 2011 og var fararstjóri íslenska hópsins (Head Of Delegation). Felix situr líka í stýrihópi Eurovision, Reference Group.
Felix var formaður Bandalags sjálfstæðra leikhúsa árin 2002-2004 auk þess sem hann sat í stjórn Höfuðborgarstofu, samtakanna Blátt áfram og Mannréttindaráðs Reykjavíkur. Hann var varamaður í Velferðarráði Reykjavíkur, Þjóðleikhúsráði og Menningar og ferðamálaráði. Þá sat hann í verkefnisstjórnum Vetrarhátíðar og Landnámssýningarinnar í Austurstræti.
Felix er giftur Baldri Þórhallssyni, stjórnmálafræðingi. Börn Baldurs og Felix eru Álfrún Perla Baldursdóttir og Guðmundur Felixson. Álfrún Perla er stjórnmálafræðingur og gift Árna Frey Magnússyni, sagnfræðingi og börn þeirra eru Eydís Ylfa og Sóley Lóa. Guðmundur er sviðslistamaður, kona hans er Þuríður Blær Jóhannsdóttir leikari og sonur þeirra er Arnaldur Snær. Barnsmóðir Baldurs er Árelía Eydís Guðmundsdóttir, viðskiptafræðingur, og barnsmóðir Felix er Ásdís Ingþórsdóttir, arkitekt.
Foreldrar Felix eru Bergur Felixson, fyrrverandi skólastjóri og framkvæmdastjóri leikskóla Reykjavíkur og Ingibjörg Sigrún Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur. Systkini Felix eru Þórir Helgi matreiðslumaður, Sigurþóra Steinunn sálfræðingur og stofnandi Bergsins Headspace og Guðbjörg Sigrún félagsfræðingur.
Helstu áhugamál Felix eru ferðalög, tónlist, bókmenntir, crossfit, leiklist og að KR og Liverpool vegni sem allra best.
Kosningaskrifstofa:
Grensásvegur 16, 105 Rvk
Félag um framboð Baldurs Þórhallssonar til forseta
postur@baldurogfelix.is
Kennitala 600324-2170
Reikningsnr. 537-26-12123
Við notum vefkökur sem nauðsynlegar eru fyrir virkni vefsins, þar með talið nafnlausar greiningar frá Google. Kökurnar eru til að tryggja virkni vefsins og bæta þína upplifun.